það á víst að vera komið sumar...

Á leiðinni heim í Njarðvíkinni
Á leiðinni heim í Njarðvíkinni
Það er ekki hægt að segja annað en að veðrátta sé stórundarleg hér á Borgarfirði þessa dagana. Nú þegar við ættum að vera að njóta sólarblíðunnar og fylgjast með náttúrunni vakna til lífsins, sitjum við þess í stað og horfum á fjallahringinn skjannahvítan og slabbkenndan út um gluggann.

Síðastliðna helgi var fjallið kolófært og var mikið verk að riðja skarðið aftur eftir óveðrið sem geysaði þá. Jörð er að verða auð á láglendi í firðinum, en Njarðvíkingar eru ekki eins heppnir því þar er allt á kafi. Kemur þetta bændum vissulega illa nú þegar sauðburður er langt kominn og vart hægt að hleypa skepnum út í þetta veður, og hvað þá unglömbunum.

En það þarf bara að vona það besta og krossa fingur. Sumarið hlýtur að koma innan skamms en það á eftir að taka einhvern tíma fyrir þenna snjó að hverfa, sem er skítt því bráðnunin í apríl var gríðarleg og það vantaði t.d. ekki marga góðviðrisdaga upp á að það yrði fært til Breiðuvíkur um Gagnheiðina. En við getum svo sem ekki kvartað og vorum í raun heppin að það var ekki vestlæg átt þegar gosið var í Grímsvötnum. Þessar myndir sem hér fylgja voru teknar síðastliðna daga hér á svæðinu.




Svartfellið skjannahvítt gnæfir yfir grænum túnum við Fjarðará



Snjóruðningur á Skarðinu



Nokkuð myndarlegt snjóflóð hefur fallið úr Tóarfjallinu



Innra-Hvannagil í Njarðvíkinni í lok maí