Miðvikudagskvöldið 17. júlí var stofnfundur Framfarafélags Borgarfjarðar haldinn í
Fjarðarborg. Fundurinn var vel sóttur og eru stofnfélagar um 45 talsins. Unt verður að gerast stofnfélagi í gegnum tölvupóst fram til 15
ágúst.
Arngrímur Viðar Ásgeirsson var kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn voru kosin þau Hólmfríður Jóhanna
Lúðvíksdóttir og Hafþór Snjólfur Helgason. Í varastjórn voru kjörinn Helgi Sigurðsson, Elsa Arney Helgadóttir og
Óttar Már Kárason.
Samkvæmt samþykktum félagsins er markmið þess að að stuðla að samfélagsþróun á Borgarfirði með áherstu
á tækifæri fyrir nýja íbúa að setjast að í sveitarfélaginu. Markmiðum sínum ætlar félagið meðal annars
að ná með því að veita stuðning við atvinnusköpun á svæðinu og við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
Forsaga þess að til fundarins var boðað er sú að fyrr í sumar hafa verið haldnir tveir opnir fundir um safélagsþróun á
Borgarfirði. Megin áherslur verkefnisins voru skilgreindar á þessum undirbúningsfundum auk þess sem ákveðið var að stofna félagið.
Þessar áherslur eru atvinnumál, húsnæðismál og almen lífsgæði.
Hægt er að gerast stofnfélagi fram til 15. ágúst með því að senda tölvupóst á netfangið framfarafelag.bgf@gmail.com, fram þarf að koma fullt nafn, kennitala og tölvupóstfang.
Samþykktir Framfarafélags Borgarfjarðar
1.gr.
Félagið heitir Framfarafélag Borgarfjarðar – til móts við nýjan dag, heimili þess og varnarþing er á Borgarfirði eystra.
Starfssvæði félagsins er Borgarfjarðarhreppur.
2. gr.
Félagið er frjáls félagasamtök einstaklinga, stofnana, samtaka og fyrirtækja og er félagið opið öllum sem vilja vinna að markmiðum
þess.
3. gr.
Tilgangur félagsins er að stuðla að samfélagsþróun á Borgarfirði með áherstu á tækifæri fyrir nýja
íbúa að setjast að í sveitarfélaginu. Markmið félagsins eru:
a) Stuðla að atvinnuþróun og framboði fjölbreyttra atvinnutækifæra.
b) Stuðla að stöðugu framboði íbúðahúsnæðis.
c) Stuðla að aukningu almennra lífsgæða á Borgarfirði miðað við kröfur hverju sinni.
4. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:
a) Veita stuðning og aðstoð við þróun og framkvæmd hugmynda sem eru til þess fallnar að skapa atvinnutækifæri á
svæðinu.
b) Leita leiða til að mæta þörf fyrir íbúðarhúsnæði og veita stuðning og aðstoð við uppbyggingu slíks
húsnæðis.
c) Greina þarfir samfélagsins þegar kemur að almennum lífsgæðum og þrýsta á hið opinbera jafnt sem einkaaðila er varðar
þjónustu við svæðið.
d) Sinna öðru sem samrýmist markmiðum félagsins.
5. gr.
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.
6. gr.
Aðeins félagsmenn sem greitt hafa árgjald hafa atkvæðisrétt á aðalfundi, aðrir hafa málfrelsi og tillögurétt. Einfaldur
meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála.
7. gr.
Aðalfund skal halda á tímabilinu 1. júní – 15. júlí ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna
fyrirvara með sannanlegum hætti ss. með tölvupósti til félagsmanna eða auglýsingu í útbreiddum miðli á starfssvæði
félagsins. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning stjórnar
7. Önnur mál
8.gr.
Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi. Stjórnina skipa þrír stjórnarmenn, þ.e. formaður, gjaldkeri og ritari sem jafnframt gegnir
hlutverki varaformanns. Að auki skulu kosnir þrír varamenn í stjórn. Stjórn og varastjórn eru kosnar til eins árs. Kjósa skal formann
sérstaklega.
Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn er eftir aðalfund félagins.
Kjörgengir til stjórnar eru félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld.
9.gr.
Ákvörðun um félagsgjald komandi starfsárs skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega fyrir 1.
júní.
10. gr.
Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins.
11. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Renna þá eignir félagsins
til samfélagsmála í Borgarfjarðarhreppi.
12. gr.
Þar sem ákvæði samþykkta þessara segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga um frjáls
félagasamtök, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.
Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi Framfarafélags Borgarfjarðar – til móts við nýjan dag.
Dagsetning: 17. 07. 2013
Undirskriftir stjórnar:
Fundargerð Stofnfundur félags um samfélagsþróun á Borgarfirði eystra
Haldinn í Félagsheimilinu Fjarðarborg 17. júlí 2013
Mættir voru 45 aðilar á fundinn (sjá nánar á skráningarlista)
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
a. Björn Aðalsteinsson var skipaður fundarstjóri og
Áskell Heiðar Ásgeirsson og Hólmfríður Lúðvíksdóttir voru skipuð fundarritarar.
2. Kynning á forsögu verkefnisins
Ásta Hlín Magnúsdóttir kynnti forsögu verkefnisins. Hún sagði hugmyndir um aðgerðir til að
bæta aðstæður til búsetu á Borgarfirði sprottnar úr tali hennar og Arngríms Viðars og fleiri. Boðað var til fundar
28. maí til að ræða málið, áhugi var á því að hefjast handa, ritað var bréf til hreppsnefndar sem samþykkti að
styrkja verkefnið um tvö mánaðarlaun verkefnastjóra. Ásta Hlín tók að sér stjórn
verkefnisins. Fundað var í byrjun júní og þar m.a. rætt um netsamband, húsnæðismál og
atvinnumál. Hugmyndir sem fram hafa komið um atvinnumál hafa verið t.d. iðnaður, ferðaþjónusta utan háannar og
fjarvinnsla. Varðandi almenn lífsgæði eru netsambandsmál áberandi en vinnuhópur hefur starfað á því sviði
undanfarið.
Ásta sagði það liggja fyrir að ungt fólk vilji flytja til Borgarfjarðar og að það verði verkefni nýs
félags að vinna að því að bæta skilyrði til þess að það geti orðið.
3. Nafn á félagið
Ásta kynnti tillögu sem kom fram á Facebook:
Framfarafélag Borgarfjarðar – til móts við nýjan dag. Aðrar tillögur komu ekki fram og var þessi tillaga
samþykkt samhljóða.
4. Samþykktir félagsins
Ásta kynnti tillögur að samþykktum félagsins.
Gerðar voru tvær breytingartillögur við 8. grein tillagnanna. Önnur var þess efnis að kjörgengi í
félaginu hafi aðeins þeir sem greitt hafa árgjald og hin var í þá veru að ekki þurfi að skila framboðum skriflega fyrir
aðalfund. Breytingartillögurnar voru samþykktar samhljóða. Aðrar athugasemdir voru ekki gerðar og samþykktirnar voru
síðan samþykktar samhljóða með áðurnefndum breytingum.
5. Ákvörðun félagsgjalds
Ásta Hlín lagði til að fyrsta félagsgjald yrði innheimt fljótlega fyrir árið 2013 og að næsta
félagsgjald yrði síðan til innheimtu 1. júní 2014.
Arngrímur Viðar kynnti þá tillögu sína að félagsgjöld yrðu hófleg, kr. 3.000 á ári og
síðan gætu fyrirtæki og einstaklingar lagt meira að mörkum eftir verkefnum, efnum og aðstæðum.
Tillaga um kr. 3.000 fyrir einstaklinga og kr. 3.000 fyrir fyrirtæki fyrir árin 2013 og 2014 samþykkt
samhljóða.
6. Kosning stjórnar
Samkvæmt nýsamþykktum samþykktum skal kjósa formann sérstaklega. Björn fundarstjóri
óskaði eftir tillögum, stungið var upp á Ástu sem baðst undan, Jóni Þórðarsyni sem baðst undan og Arngrími Viðari
Ásgeirssyni. Borin upp tillaga um Arngrím Viðar og var hún samþykkt samhljóða. Arngrímur Viðar er
því fyrsti formaður Framfarafélags Borgarfjarðar.
Fundarstjóri óskaði eftir tilnefningum í stjórn. Tillögur komu fram um Hafþór Helgason,
Óttar Kárason, Hólmfríði Lúðvíksdóttur, Helga Sigurðsson, Elsu Arneyju Helgadóttur.
Gengið var til kosninga, Hafþór og Hólmfríður hlutu bæði 22 atkvæði og skoðast þau því
réttkjörin í aðalstjórn. Helgi hlaut 21 atkvæði, Elsa Arney 17 og Óttar 2 og þau teljast því
réttkjörin í varastjórn.
7. Önnur mál
a) Hafþór kynnti stöðu mála varðandi vinnu
hóps sem fjallar um nettengingar. Unnið hefur verið með tillögur sem Jónas Sigurðsson lagði fyrir hópinn, beðið er eftir
frekara samstarfi við Jónas um framhald málsins.
b) Viðar óskaði eftir tilnefningum í starfshóp
um húsnæðismál. Fram komu tilnefningar um Gunnlaug Garðarsson, Magnús Þorra Jökulsson, Einar Magna Jónsson, Birki
Björnsson, Jón Sigmar Sigmarsson og Önnu Margréti Jakobsdóttur. Samþykkt samhljóða. Ásta Hlín mun
boða hópinn til fundar.
Fundargerð borin upp til samþykktar
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21:30
Fundarritarar:
Áskell Heiðar Ásgeirsson
Hólmfríður Lúðvíksdóttir
Fundarstjóri:
Björn Aðalsteinsson