Umsóknir til Menningarráðs Austurlands

Menningarráð Austurlands auglýsir nú eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2012. Við hvetjum alla sem eru með góðar hugmyndir um menningarviðburði að setja inn umsókn en Menningarráðið hefur lagt til þónokrra styrki til Borgarfjarðar á undanförnum árum.



Úthlutunarreglur vegna verkefnastyrkja
Menningarráðs Austurlands til menningarmála 2012

1. Umsækjendur geta verið lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Austurlandi.

2. Menningarráð Austurlands leggur áherslu árið 2012 á fjóra flokka við úthlutun styrkja; stór samvinnuverkefni, minni samvinnuverkefni, minni svæðisbundin verkefni og verkefni einyrkja. Auk þess verða veittir undirbúningsstyrkir.
Minni svæðisbundin verkefni og verkefni einyrkja. Í þessum flokki eru hámarksstyrkir 500.000.- þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 50% af heildarkostnaði við verkefnið.
Minni samstarfsverkefni. Samstarf getur verið svæðisbundið, milli staða, einstaklinga, stofnana eða listgreina. Minni samstarfsverkefni geta fengið að hámarki 1 milljón króna, þó aldrei hærri upphæð en sem nemur 50% af heildarkostnaði við verkefnið.
Stór samstarfsverkefni. Í þessum flokki þurfa a.m.k. þrír aðilar að starfa saman og einkum er horft til verkefna sem tengir saman Austurland og hvetjur til samstarfs og samvinnu þeirra sem að jafnaði vinna ekki saman. Heimilt er að veita til slíkra verkefna allt að 2 milljónir, en styrkur getur þó aldrei orðið hærri en 80% af heildarkostnaði verkefnisins.
Undirbúningsstyrkir vegna stærri verkefna. Undirbúningsstyrkurinn er til að auðvelda aðilum af stærra svæði að ná saman, kanna forsendur og undirbúa verkefnaumsókn til ráðsins. Í umsókninni þurfa að koma fram skilgreind markmið verkefnisins sem sótt er um undirbúningsstyrk til, ávinningur af samstarfi og væntanleg niðurstaða verkefnisins. Umsókn þarf að fylgja staðfesting þátttakenda í verkefninu og hlutverk hvers og eins þeirra. Hámarksundirbúningsstyrkur er 100.000.- á hvern þátttakanda, þó aldrei hærri en 50% af heildarkostnaði verkefnisins.
Menningarráð Austurlands hefur ákveðið að árið 2012 hafi þau verkefni forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:

•    Verkefni sem hvetja til samstarfs milli tveggja eða fleiri aðila, byggðarlaga eða listgreina.
•    Verkefni sem efla atvinnustarfsemi á sviði menningar, lista og menningartengdrar ferðaþjónustu.
•    Verkefni sem fara fram á vinnustöðum á Austurlandi.
•    Verkefni sem stuðla að samvinnu atvinnumanna í listum, listnema og leikmanna.
•    Verkefni sem miða að því að listnemar og ungir listamenn frá Austurlandi komi í auknu mæli að listsköpun og menningarstarfi í fjórðungnum.

3. Umsækjendur verða að geta sýnt fram á fleiri fjárhagslega bakhjarla en Menningarráð Austurlands. Styrkir ráðsins geta aldrei verið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi alls kostnaðar, þ.e. 50% af kosnaði við verkefnið.

4. Með umsókninni verður að fylgja greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur. Umsóknum skal skilað í átta eintökum. Mikilvægt er að umsóknir séu rétt útfylltar og öllum skilyrðum uppfylgt að öðrum kosti verður umsókn hafnað.

5. Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnis og notkun heimilda ef þarf, sem og öðrum þáttum verkefnisins.

6. Menningarráð Austurlands og styrkþegi gera með sér sérstakan samning sem m.a. kveður á um fyrirkomulag greiðslu, lokaskýrslu og eftirfylgni.

7. Menningarráðið mun ekki veita rekstrar-, stofnkostnaðar- eða endurbótastyrki. Ekki verður heldur styrkt skráning á menningarminjum, starfsemi íþróttafélaga, bæjarhátíðir eða almennar samkomur (s.s. tónleikar og sýningar án sýnilegrar sérstöðu), safnaðarstarf og hefðbundið menningarstarf innan skóla.

8. Menningarráð Austurlands og styrkþegi gera með sér sérstakan samning sem m.a. kveður á um fyrirkomulag greiðslu. Styrkþegi skal skila skriflegri lýsingu ( lokaskýrslu ) á framkvæmd og árangri verkefnisins innan árs frá samþykkt umsóknar. Að öðru leyti ber styrkþega að veita Menningarráði Austurlands upplýsingar um framkvæmd verkefnisins þegar og ef eftir því verður leitað.

9. Umsóknir þurfa að vera á eyðublöðum frá Menningarráðinu og póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.

Menningarráð Austurlands 21 . október  2011