Borgfirsk ungmenni í hugmyndavinnu
Laugardaginn 17. ágúst stóð Framfarafélag Borgarfjarðar fyrir ungmennaráðstefnu sem haldin var í Fjarðarborg.
Ráðstefnan var ætluð ungu fólki á aldrinum 13-20 ára og var ágætlega sótt.
Á ráðstefnunnni sköpuðust fjörugar og góðar umræður og ýmsar hugmyndir komu fram. Ungmennin veltu vöngum yfir
því sem betur mætti fara þegar kemur að lífsgæðum síns aldurshóps á Borgarfirði í nútímanum auk þess
að ræða áframhaldandi þróun byggðar og atvinnulífs allt fram til 2050. Ráðstefnugestir voru sammála um að frekari
dægradvöl þyrfti fyrir ungmenni á svæðinu og að lausnir við því væru skipulögð íþróttaiðkun og stofnun
félagsmiðstöðvar.
Ungmennin sáu fyrir sér nokkra fjölgun íbúa og uppbyggingu íbúðahúsnæðis en töldu mikilvægt í því
samhengi að halda í svipaða bæjarmynd. Ráðstefnugestir komu auga á fjölda ónýttra tækifæra í
ferðaþjónustu með frekari skipulögðum ferðum meðal annars tengdum hestamennsku og siglingum. Myndrænar niðurstöður ráðstefnunar
verða til sýnis í Fjarðarborg fram til loka ágúst og eru allir hvattir til að fara og kynna sér framtíðarsýn unga fólksins
á Borgarfirði.
Hér fyrir neðan sjá nokkrar hugmyndir sem komu fram á ungmennaráðstefnunni