Þá er Bræðslan liðin, en ennþá er nóg um að vera í firðinum og sumarið langt í frá að verða
búið.
Á föstudaginn er það hið sívinsæla hagyrðingamót í Fjarðarborg sem er að þessu sinni undir stjórn Ara Eldjárns.
Hagyrðingar kvöldsins eru þeir; Andrés Björnsson, Þórarinn Eldjárn, Ingunn Snædal, Friðrik Steingrímsson og Stefán Bogi
Sveinsson. Lifandi tónlist eftir mótið þar sem Jón Arngrímssson og vinir leika.
Á Laugardaginn verður síðan Kokteilakvöld í Álfacafé og munu Vinir Kalla leika fyrir dansi frá 23:00
Fréttatilkynning
Álfaborgarsjens er fyrir löngu orðin elsta
hátíðin sem fer fram um Verslunarmannahelgina á Íslandi en þá eru Vestmannaeyjar að sjálfsögðu ekki taldar með.
Tónlistarhátíðin Bræðslan hefur vaxið Álfaborgarsjens nokkuð yfir höfuð en Sjensinn á enn sess í hugum fólks sem
sækir viðburði á Borgarfirði um Verslunarmannahelgina ár hvert.
Á föstudag klukkan 20:30 fer fram hið
sívinsæla hagyrðingamót í Fjarðarborg. Hátt í 20 ár eru liðin síðan fyrsta hagyrðingamótið fór þar
fram í tengslum við Álfaborgarsjens og hefur það aðeins einu sinni fallið niður frá upphafi. Það gerir mótið að einu
því langlífasta á landinu enda er iðulega húsfyllir í Fjarðarborg á þessum mannamótum. Þetta árið er ekkert til
sparað því konungur íslenskra uppistandara Ari Eldjárn verður stjórnandi mótsins auk þess sem faðir hann Þórarinn
Eldjárn verður einn hagyrðinganna. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem þeir feðgar koma fram á skemmtun og Ari mun þreyta frumraun sína
í að stjórna hagyrðingamóti. Aðrir hagyrðingar verða heimamaðurinn Andrés Björnsson, Friðrik Steingrímsson frá
Mývatni, Ingunn Snædal ,,atómhagyrðingur" frá Fljótsdalshéraði og Stefán Bogi Sveinsson frá Fljótsdalshéraði. Eftir
hagyrðingamótið verður dansgólfið rýmt og gestir geta brugðið fyrir sig betri dansfætinum við undirleik Jóns Arngrímssonar og
félaga. Húsið verður opnað fyrir gesti hagyrðingamótsins kl. 20:00.
Á Laugardag verður síðan Kokteilakvöld
í Álfacafé og munu Vinir Kalla leika fyrir dansi frá 23:00. Karl Sveinsson útgerðar- veitinga, athafna- og Hvannstóðsmaður hefur
nýlega tekið í notkun nýtt rými í Álfacafé sem eykur verulega möguleika til skemmtanahalds í húsinu. Það
má því búast við miklu fjöri á Álfacafé á laugardagskvöldið og þar er enginn aðgangseyrir.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað
í ferðaþjónustu á Borgarfirði eystra allra síðustu ár og þar má nefna aukið gistirými á Borg í
Njarðvík, Hótel Álfheimum og Gistiheimilinu Blábjörgum þar sem Musteri Spa er á neðri
hæð. Ennfremur er í boði gisting hjá Gistiheimilinu Borg. Jafnframt hefur öll aðstaða á tjaldstæðinu sem Borgarfjarðarhreppur rekur
verið bætt verulega og gerist varla betri á landinu. Borgfirðingar geta því með hverju árinu tekið betur og betur á móti gestum
sínum og skipuleggjendur Álfaborgarsjens vona að sem flestir nýti sér það um komandi helgi.