Vor í lofti
Við lok skólaársins 2014-2015 var okkur í skólanum ljóst að
við höfðum fengið veglegan styrk frá Sprotasjóði til að efla fjölbreytta
kennsluhætti í grunnskólanum og um leið gera nemendur sjálfstæðari og ábyrgari
námsmenn. Það er því ekki úr vegi í lok þessa skólaárs að segja frá því hvernig
styrkurinn nýttist okkur og hvað við höfum fengist við á skólaárinu.
Fyrir utan að nýta styrkinn og fé af fjárhagsáætluninni til
að uppfæra tölvubúnað í skólanum og jafnramt til að kaupa ýmislegt gagnlegt
fyrir úti- og innikennsluna, fóru kennarar í afar vel heppnaða skólaheimsókn til
Finnlands í apríl í þeim tilgangi að viða að sér fróðleik um fjölbreytta
kennsluhætti og þá sérstaklega fræðast um þemanám og aukna ábyrgð nemenda á eigin námi.
Þar fyrir utan hafa nemendur notið þess að eiga möguleika á
ýmsum ferðum og sóttu meðal annars námskeið, fyrirlestra og viðburði á skólaárinu, en samstarf við skólana á
Fljótsdalshéraði hefur verið með eindæmum gott. Jafnframt hafa kennararnir hér, og er
það einna mikilvægast, beitt
fjölbreyttum kennsluaðferðum markvisst í vetur. Í maí var til að mynda valvika hjá öllum nemendum grunnskóladeildar en þá var
nemendum gefinn frjáls taumur hvað verkefnaval snerti en skipulag kennslunnar
flokkaðist undir svokallað leitarnám. Þegar leitarnámsaðferðir eru nýttar vinna
nemendur eftir vísindalegum ferlum. Að þessu sinni höfðu nemendur frjálst val
um viðfangsefni, bjuggu svo til
rannsóknarspurningu, settu sér markmið og ákváðu með hvaða hætti þau vildu kynna
niðurstöðurnar. Viðfangsefnin urðu því mjög fjölbreytt allt frá heimspekilegum
vangaveltum um muninn á Borgfirðingum og Reykvíkingum til mætti heilans miðað
við tölvurnar, til ljósmyndaverkefnis og rannsóknar á starfi leikskólakennarans,
svo dæmi séu tekin.
Við kennarar settum skilyrði líkt og í lok valviku fyrri
ára, um að niðurstöður yrðu kynntar á opnu húsi 20.maí, og komu foreldrar,
gestir og leikskólanemendur til að hlýða á grunnskólanemendur kynna niðurstöður,
verkin sín og vinnu í valviku.
Maí mánuður var einstaklega viðburðaríkur, sólin lék við
okkur, verkefni og kennsluhættir fjölbreytt sem aldrei fyrr en það má með sanni segja að fjölbreytt nám hafi verið í fyrirrúmi hjá okkur allt skólaárið. Myndir frá því í
maí má sjá hér.