Hópurinn í upphafi ferðar
Haustferð grunnskólans var að þessu sinni heitið í Húsavíkina
"ljótu en feitu" eins og Margrét ríka orðaði það forðum. Við höfðum fengið leyfi hjá Ferðafélagi
Fljótsdalshéraðs til að gista þar í skálanum þeirra. Allir nemendur og kennarar skólans lögðu af stað með
létta malpoka í afbragðs gönguveðri. Annan farangur s.s. matarskrín, svefnpoka, miðnætursnakk og tannbursta tók Þráinn (
nýji kennarinn ) með í hreppsbílnum sem fylgdi okkur eftir sem eins konar trússbíll. Gengið var frá Urðarhólum, sem leið liggur
yfir Húsavíkurheiði um Gunnhildardal niður í Húsavík. Þetta tók styttri tíma en áætlað var og áttu
göngumenn nóg eftir þegar komið var í skála. Af þeim sökum var ákveðið að rölta út í Húsavík sem
nokkrir nýttu sér en aðrir fundu sér góðan hyl í Gunnhildardalsánni til að stökkva í. Einhverjir vildu líka slappa af og
urðu eftir í skálanum. Eftir kaffi var tekið til við verkefni dagsins sem voru með ýmsu móti; s.s.
málað, ort og safnað jurtum. Eftir kvöldmat "a la kennarar" þá var
kvöldvaka sem nemendur sáu um og þar var mikið gaman og mikið grín. Síðan var tekið til við kvöldkaffið, því ekki
má missa úr matmálstíma, og svo eftir krassandi draugasögu frá Þráni var gengið til náða. Morguninn eftir vöknuðum við
í þoku og sudda sem breyttist mjög fljótlega í rok og rigningu. Eldri börnin létu það samt ekki á sig fá heldur örkuðu af
stað heim að loknum morgunverði og lýsi. Þau yngri hjálpuðu til við að þrífa skálann og pakka saman í bílinn sem
selflutti svo þreytta ferðalanga til síns heima eftir dásemdar ferð til Húsavíkur.
Hérna má líta myndir úr ferðinni.