Krakkarnir að leik á skólalóð Seyðisfjarðarskóla
Í byrjun september fór grunnskólinn í haustferð til Seyðisfjarðar. Dagskrá ferðarinnar var fjölbreytt og skemmtileg. Fyrsti áfangastaðurinn var Skaftfell þar sem við skoðuðum sýninguna
Jaðaráhrif ásamt nemendum úr grunnskóla Djúpavogs og gengum síðan upp í Tvísöng þar sem bæði var sungið og leikið. Eftir hádegisnesti gengum við að Botnatjörn þar sem við drukkum kakó og tíndum krækiber. Þegar við komum úr göngunni héldum við út í höfnina þar sem Norræna lá við festar. Við fengum höfðinglegar mótttökur um borð og á leiðinni út voru flest okkar byrjuð að skipuleggja ferð til Færeyja í huganum. Þá var farið í sund og kvöldverðurinn voru síðan gómsætar pítsur í Skaftfelli. Við enduðum kvöldið á bíói í Herðubreið þar sem við sáum myndina um Matthildi. Seinni daginn heimsóttum við Pétur í Tækniminjasafninu og borðuðum hádegismat í Seyðisfjarðarskóla. Loks skoðuðum við Bláu kirkjuna og Geirahús áður en við héldum aftur heim á leið.